154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:29]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Í þessari fjármálaáætlun kemur fram að stórauka á eftirlit með fiskeldi enda kannski ekki vanþörf á þar sem við sjáum ítrekað ótrúlega þjónkun við fiskeldi eins og þá að það eigi ekki einu sinni að rannsaka slysasleppingar þrátt fyrir þann gríðarlega skaða sem slíkt getur valdið í lífríkinu og að ný leyfi eru veitt án þess að búið sé að framkvæma áhættumat vegna erfðablöndunar og svo má lengi telja. Leyfi virðast veitt þrátt fyrir að eftirlitsstofnanir bendi á að mótvægisaðgerðir séu líklega ómögulegar. Svo sjáum við valdníðslu þar sem öll stjórnsýslan bregst, með því að búið sé að skipuleggja fiskeldi inn á svæði sem vel má færa rök fyrir að séu eign annars og því sé bara hafnað að rannsaka til hlítar hvar mörkin liggi. Það virðist öllu mega fórna fyrir sjókvíaeldi sem samræmist einfaldlega engan veginn okkar hugmyndum um hreina náttúru landsins né einu sinni að eignarréttur okkar borgaranna sé virtur. Þetta gerist á sama tíma og sífellt koma nýjar hindranir fyrir bændur landsins til að sinna eigin heimilisiðnaði. Við virðumst ófær um að sinna fullkomlega eðlilegu eftirliti gegn stórfyrirtækjum sem svífast einskis í að fórna íslenskri náttúru til að hægt sé að framleiða fisk, sem hefur sýnt sig, út frá sjónarmiðum um nýtingu matvæla, að er með óskilvirkari leiðum til að framleiða matvæli. Á sama tíma fá bændur og aðrir borgarar í landinu engin tækifæri til að þróa eigin framleiðslu án þess að nýta t.d. milliliði. Það hefur samt engan tilgang að dæla milljörðum í eftirlit ef stjórnsýslan ætlar bara að vera meðvirk með fiskeldisstóriðjunni. Það fjármagn verður að nýtast. Við borgarar í landinu verðum að hafa raunhæf úrræði til að leita réttar okkar. Ætti okkur ekki að vera orðið það ljóst eftir dóm Mannréttindadómstólsins? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja þessa hagsmuni, annars vegar náttúrunnar og hins vegar okkar borgaranna?